Trúnaðarmenn
Um trúnaðarmenn
Trúnaðarmenn eru ábyrgir gagnvart SSF og eru tengiliðir samtakanna við aðildarfélögin. Trúnaðarmaður gætir þess, að kjarasamningar séu haldnir og réttur starfsmanna sé í hvívetna virtur. Trúnaðarmenn eru kjörnir annað hvert ár.
Starf trúnaðarmannsins
Innan trúnaðarmannahóps SSF starfar þéttur og samheldinn hópur einstaklinga með áratuga reynslu. Þessi hópur gegnir trúnaðarmannastörfum fyrir félagsmenn SSF sem
og stéttarfélagið. Hjá kjörnum trúnaðarmönnum er eðlilegt að upp komi ótal spurningar sem erfitt getur reynst að fá svör við. Mikilvægt er þó að gefa sér tíma í að kynnast starfinu
og afla upplýsinga innan úr röðum trúnaðarmanna og skrifstofu SSF.
Trúnaðarmaðurinn er fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustaðnum, kjörinn af samstarfsmönnum og þ.a.l. umboðsmaður þeirra gagnvart atvinnurekanda og stéttarfélagi. Að því leyti er trúnaðarmaðurinn bæði í stöðu varðmanns gagnvart réttindum samstarfsmanna sinna og
jafnframt upplýsingagjafi (tengiliður) stéttarfélagsins.
Meginstarf trúnaðarmannsins er að gæta þess að kjarasamningar, lög og réttindi starfsmanna séu virt í hvívetna. Mikilvægt er að trúnaðarmenn kynni sér almennt kjör félagsmanna SSF, kjarasamninga, lög og réttindi starfsmanna.
Trúnaðarmannahandbók SSF er gagnlegt rit fyrir trúnaðarmenn og alla þá sem vilja þekkja réttindin sín.
Lausn ágreiningsmála
Ef upp koma ágreiningsefni er alltaf best að leysa það innanhúss ef hægt er. Trúnaðarmaður hlustar á báða aðila og hefur í huga að hann er mögulega trúnaðarmaður beggja og verður því að hlusta á báða aðila og meta í framhaldinu hvað best sé að gera. Trúnaðarmaður getur haft samband við SSF og fengið ráðleggingar ef nauðsyn þykir.
Trúnaðarmannafræðsla
Hjá SSF starfa um 100 trúnaðarmenn, kjörnir af samstarfsfólki viðkomandi
trúnaðarmanns. Starf trúnaðarmannsins er margþætt, ábyrgðarmikið og vandasamt.
Væntingar til trúnaðarmanna eru miklar og til þess að þeir geti staðið undir væntingum
hefur SSF liðsinnt þeim af alefli, bæði með námskeiðshaldi og með því að standa við hlið
þeirra í störfum sínum með því að veita aðstoð og ráðgjöf.
SSF býður alla trúnaðarmenn velkomna til starfa og hvetur þig til að hafa samband við
skrifstofu SSF vegna starfa þinna sem trúnaðarmaður.
Á slóðinni hér fyrir neðan er að finna nýjustu útgáfu af Trúnaðarmannahandbók SSF á pdf formi.
Trúnaðarmannahandbók SSF
Kosning trúnaðarmanna
Eftirfarandi er til leiðbeiningar fyrir trúnaðarmenn um framkvæmd kosninga.
Viku til tíu dögum fyrir kjördag þarf að setja upp auglýsingu þar sem lýst er eftir framboðum.
Strax að loknum kosningum ber að senda skilagrein á excel formi til SSF. Nauðsynlegt er að fylla í alla reiti. Einnig á að skila skilagrein þegar trúnaðarmaður er endurkjörinn!
Um framkvæmd kosninga
Mikilvægt er að trúnaðarmenn séu kjörnir á lýðræðislegan hátt. Þannig er öllum gefinn kostur á að bjóða sig fram. Trúnaðarmaður skal kosinn til tveggja ára.
Hverjir eru kjörgengir?
Allir félagsmenn SSF geta boðið sig fram. Það er ekkert sem mælir gegn því að starfsmenn í auglýstum stöðum, aðrir en æðstu yfirmenn á vinnustað, séu trúnaðarmenn, ef þeir njóta trausts starfsfélaga sinna. Æskilegra er að sá sem valinn er til trúnaðarmannsstarfsins hafi starfað a.m.k. eitt ár á vinnustaðnum og þekki starfsreglur fyrirtækisins, en ekki sá sem er nýr í starfi.
Hverjir kjósa?
Félagsmenn SSF kjósa sér trúnaðarmann á hverjum vinnustað þar sem vinna fimm eða fleiri félagsmenn. Þar sem vinna færri en fimm er trúnaðarmannaráði heimilt að skipa umboðsmann. Skyldur hans eru hliðstæðar skyldum trúnaðarmanns. Þetta þýðir að allir félagsmenn SSF eiga að hafa aðgang að trúnaðarmanni.
Hvernig er kosning skipulögð?
Ágætt er að tveir félagsmenn stjórni kosningu, t.d. starfandi trúnaðarmaður og annar fulltrúi starfsmanna og beri þeir alla ábyrgð á að hún fari rétt og löglega fram. SSF hvetur til þess að kosning sé höfð skrifleg og að þar til skipaðir félagsmenn telji atkvæði. Á stærri vinnustöðum er ráðlegt að skipa þriggja manna kjörnefnd til þess að sjá um kosningu í samráði við trúnaðarmann. Þeir sem stjórna kosningu geta gert annað tveggja: Hvatt starfsmenn til þess að stinga upp á frambjóðendum, sem þurfa að vera samþykkir því að taka starfið að sér, eða lagt til að allir á vinnustaðnum séu í kjöri. Verði fyrrtalda aðferðin valin, þá skal listi með frambjóðendum fylgja hverjum kjörseðli og aðeins kosið um þá sem skráðir eru á þann lista. Hlýtur sá kosningu sem fær flest atkvæði. Sé einungis stungið upp á einum er sá sjálfkjörinn.
Ákveði starfsmenn að allir séu í kjöri skulu kjósendur rita eitt nafn á atkvæðaseðil. Fái enginn hreinan meirihluta fer fram kosning milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu í fyrri umferð og telst sá réttkjörinn trúnaðarmaður sem fleiri atkvæði fær þá. Ef atkvæði falla jafnt á þá sem flest atkvæði hlutu, skal kosið aftur á milli þeirra.
Eftir kosningar
Strax að lokinni kosningu skal senda tilkynningu til SSF og starfsmannafélagsins um val trúnaðarmanns. Sjálfsagt er og góð vinnuregla að láta yfirmenn vita af úrslitum kosninganna svo ekki komi til árekstra þegar trúnaðarmaður þarf að fara á fundi eða sækja námskeið, sem snerta störf hans sem slíks. Tilvalið er einnig að nýkjörinn trúnaðarmaður (hvort sem hann er endurkjörinn eða nýr) fari yfir hlutverk sitt með yfirmanni þannig að báðir rifji upp hver eru viðfangsefni trúnaðarmanns (sjá samning um trúnaðarmenn hér til vinstri á síðunni og í fylgiskjölum með Kjarasamningi SSF)
Samningur um trúnaðarmenn
1. gr. Á hverjum vinnustað, þar sem starfandi eru a.m.k. 5 félagsmenn, er starfsmönnum heimilt að velja sér trúnaðarmenn starfsmannafélags og SSF fyrir þann vinnustað. Fjöldi þeirra skal ákveðinn í samráði við SSF, hlutaðeigandi starfsmannafélag og viðkomandi stofnun.
2. gr. Trúnaðarmaður skal gæta þess, að kjarasamningar séu haldnir og réttur starfsmanna sé í hvívetna virtur, einkum orlof, vinnuvernd, öryggi og hollustuhættir. Trúnaðarmaður geri sitt besta til að skapa og viðhalda góðri samvinnu innan stofnunar og leitist við að leysa hugsanleg ágreiningsefni. Þegar ágreiningur rís um samningsbundin kjör starfsmanna, réttindi eða skyldur, koma kjörnir trúnaðarmenn starfsmanna fram fyrir hönd starfshópa og aðstoða einstaklinga eftir því sem óskað er af starfsmanni eða banka, nema þegar ágreiningur nær út fyrir skilgreindan vinnu-stað, þá fer stjórn starfsmannafélags með málefni starfsmanna gagnvart banka. Þó geta kjörnir trúnaðarmenn falið stjórn starfsmannafélags meðferð málsins telji þeir ástæðu til.
3. gr. Starfsmenn snúi sér til trúnaðarmanns með kvartanir sínar. Ber trúnaðarmanni að rannsaka málið þegar í stað, er umkvartanir berast eða þegar hann hefur ástæðu til að ætla að gengið sé á rétt starfsmanna eða stéttarfélags á vinnustað hans af hálfu stofnunar. Komist trúnaðarmaður að þeirri niðurstöðu, að umkvartanir eða grunur hafi við rök að styðjast, ber honum að krefjast lagfæringar.
4. gr. Trúnaðarmaður skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt, að hann hefur valist til trúnaðarstarfsins.
5. gr. Trúnaðarmaður skal gefa starfsmönnum á vinnustaðnum svo og starfsmannafélagi, er í hlut á og jafnframt SSF, eftir eðli málsins, skýrslu um kvartanir starfsmanna, jafnskjótt og við verður komið. Ennfremur gefur hann sömu aðilum skýrslu um að hvaða leyti hann telur að stofnunin hafi vanefnt kjarasamninga, svo og hvaða lagfæringar hafi fengist fram.
6. gr. Nú þarf atvinnurekandi að fækka við sig starfsmönnum og skal trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.
7. gr. Trúnaðarmenn og formaður starfsmannafélags skulu hljóta hæfilegan frítíma á óskertum launum til nauðsynlegrar þátttöku á námskeiðum og fundum, er snerta störf þeirra sem slíkra, enda valdi það sem minnstri röskun á starfsemi bankans.
8. gr. Trúnaðarmönnum og formanni starfsmannafélags er heimilt að rækja félagsleg störf sín í vinnutíma og skulu þeim sköpuð starfsaðstaða með aðgangi að síma og til að ræða einslega við starfsmenn.
9. gr. Formaður starfsmannafélags, í samráði við stjórn þess og trúnaðarmannaráð, fylgist með og hefur tillögurétt um launabreytingar og framkvæmd kjarasamninga. Fulltrúar starfsmannafélags eiga rétt á að koma á fundi bankaráðs til þess að ræða málefni starfsmanna.
10. gr. Fundir bankastjórnar, starfsmannastjóra og fulltrúa starfsmanna, um almenn hagsmunamál starfsfólks, skulu haldnir þegar annar hvor aðili óskar.
11. gr. Fundir með stjórnendum og deildarstjórum banka, og stjórn og/eða trúnaðarmönnum starfsmannafélags, einkum um skipulag og starfsemi bankans og áform um breytingar á því, skulu haldnir þegar tilefni gefst til og annar hvor aðili óskar.
12. gr. Aðilar geta hvenær sem er gert breytingar á samningi þessum, séu þeir um það sammála.
Efnisval
- Um trúnaðarmenn
- Starf trúnaðarmannsins
- Lausn ágreiningsmála
- Trúnaðarmannafræðsla
- Trúnaðarmannahandbók SSF
- Kosning trúnaðarmanna
- Samningur um trúnaðarmenn