Launagreiðendur
Launagreiðendur
Fyrir launagreiðendur
Aðild að SSF er einungis möguleg fyrir starfsfólk fjármálafyrirtækja, dótturfélaga þeirra og fyrirtækja sem þjónusta fjármálafyrirtæki. Með því að heimila aðild starfsfólks skuldbindur fyrirtækið sig til þess að að greiða laun og önnur kjör samkvæmt kjarasamningum SSF.
Félagsgjaldanúmer SSF er 542.
Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, kt. 550269-7679.
Reikningsupplýsingar: 0133-26-007679
Skilagreinar:
Skilagreinum skal skila rafrænt. Hægt er að senda skilagreinar með rafrænni sendingu á XML-formi eða með SAL-formi á netfangið skilagrein@ssf.is. Greiða má í einni upphæð en skilagreinar með fullnaðarupplýsingum (nákvæmri sundurliðun gjalda) um viðkomandi launþega þurfa jafnframt að berast mánaðarlega.
Félagsgjöld
Fyrirtækið dregur mánaðarlega af launum félagsmanna 0,7% af mánaðarlaunum og greiðir til SSF sem félagsgjald. Hámarksfjárhæð félagsgjalds er kr. 5.500 frá og með 1. júní 2025. Félagsgjald til SSF reiknast af öllum mánaðarlaunum.
Styrktarsjóður SSF:
Fjármálafyrirtæki greiða 0,7% af öllum mánaðarlaunum starfsmanns til Styrktarsjóðs, ekkert hámark.
Menntunarsjóður SSF:
Fjármálafyrirtæki greiða 0,30% af öllum mánaðarlaunum starfsmanns til Menntunarsjóðs, ekkert hámark.
Greiðslur í lífeyrissjóði:
Auk umsaminnar greiðslu 6% í sameignarlífeyrissjóð greiðir fyrirtækið fyrstu þrjú starfsárin sérstakt 5,5% framlag ofan á laun starfsmanns í séreignarlífeyrissjóð sem starfsmaðurinn sjálfur ákveður (sjá grein 8.1.2. í kjarasamningi). Eftir þriggja ára starf skv. kjarasamningum SSF hækkar þessi greiðsla úr 5,5% í 7%.
Orlofsheimilasjóður:
Gjald er 0%. Fyrirkomulag orlofsheimila fyrir félagsmenn SSF er með þeim hætti að þau mál eru leyst af starfsmannafélagi innan hvers fyrirtækis og þar með er ekki greitt í sameiginlegan orlofssjóð hjá stéttarfélaginu.
Greiðslur í lífeyrissjóð
Lífeyrismál – almennt
Félagsmenn SSF eru aðilar að mörgum lífeyrissjóðum. Til að gefa innsýn í hvernig það kerfi virkar eru hér birtar skilgreiningar á hlutfallsdeild og aldursdeild af vef Lífeyrissjóðs Bankamanna sjá www.lifbank.is. Neðst er svo stutt útskýring á séreignarsparnaði sem greiðendur í stigadeild geta lagt fyrir.
Hlutfallsdeild (af vef Lífeyrissjóðs Bankamanna)
Í Hlutfallsdeild er starsfmanni heimilt að láta af störfum með rétti til eftirlauna 65 ára. Með því að starfa áfram og greiða iðgjöld til sjóðsins, er hægt að vinna sér inn viðbótarréttindi, hafi hámarksréttindum ekki verið náð. Sá sem náð hefur 60 ára aldri og hefur samanlagðan aldur og starfsaldur 95 ár, getur hætt störfum með rétti til eftirlauna. Einnig er sjóðfélaga sem orðinn er 60 ára heimilt að láta af störfum og hefja töku eftirlauna, þótt hann nái ekki 95 ára reglu, en þá með skerðingu eftirlaunanna, 0,5% fyrir hvern mánuð sem vantar á að 65 ára aldri sé náð.
Upphæð eftirlauna er hundraðshluti af launum fyrir fullt starf í stöðu þeirri sem sjóðfélaginn gegndi síðustu fimm árin og skal endurmeta laun fyrstu fjögurra áranna til verðlags á því síðasta með vísitölu neysluverðs. Eftirlaunin nema 1,82% fyrir hvert iðgjaldagreiðsluár í fullu starfi, en hlutfallslega lægri fyrir lægra starfshlutfall, þar til 72,8% eftirlaunahlutfalli er náð.
Aldursdeild (af vef Lífeyrissjóðs Bankamanna)
Í Aldursdeild er starfsmanni heimilt að láta af störfum með rétti til eftirlauna 67 ára gamall. Heimilt er að láta af störfum 65 ára og hefja töku lífeyris, en þá skerðast eftirlaunin um 0,6% fyrir hvern mánuð sem vantar á að 67 ára aldri sé náð. Í Aldursdeild gildir engin 95 ára regla eins og í Hlutfallsdeildinni. Sjóðfélagi sem orðinn er 67 ára og heldur áfram störfum, hækkar lífeyrinn um 0,6% fyrir hvern mánuð sem hann vinnur umfram 67 ára aldur.
Við útreikning eftirlauna er miðað við grundvallarlaun í janúar 1998 og eru þau uppreiknuð miðað við neysluvísitölu sem þá var 181,4 stig.
Upphæð eftirlauna í Aldursdeild er hundraðshluti grundvallarlauna og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda viðkomandi, margfölduðum með 1,6 samkvæmt 19. grein í 3. kafla Samþykkta sjóðsins.
Séreignarsparnaður
Félagsmaður SSF sem er aðili að aldursdeild fær eftir þriggja ára starf greidd 7% af launum frá vinnuveitanda inn í viðbótarlífeyrissparnað, en fram að þriggja ára starfstíma fær hann greitt 5,5% (var 2% til 31.12.2019) af launum í viðbótarlífeyrissparnað.
Auk þess getur starfsmaðurinn sjálfur lagt fram 2-4% af launum til viðbótar og fengið 2% mótframlag frá vinnuveitanda að auki.
Rétt er að hafa í huga áður en byrjað er að hefja töku viðbótarlífeyrissparnaðar að slíkur sparnaður er undanþeginn fjármagnstekjuskatti og einnig þarf að hafa í huga að tekjuskattur er greiddur við úttekt.
Mótgreiðslur í fæðingarorlofi
Markmið fæðingar- og foreldraorlofs er að tryggja foreldrum sem besta möguleika til að vera samvistum við börn sín, einkum á fyrstu æviárum þeirra. Jafnframt að tryggja börnum rétt til að vera samvista við báða foreldra sína.
Í lögunum er kveðið á um að sjálfstæður réttur hvors foreldris er 6 mánuðir en heimilt er að framselja allt að 1,5 mánuði milli foreldra. Þannig getur annað foreldrið tekið allt að 7,5 mánuði af 12 mánaða réttinum og hitt foreldrið 4,5 mánuði henti það aðstæðum foreldra. Nánari upplýsingar hjá Fæðingarorlofssjóði, www.faedingarorlof.is
Mótgreiðslur atvinnurekenda fyrir fastráðna starfsmenn samkvæmt gr. 6.2.1 í kjarasamningi SSF
Frá og með 1. januar 2025 verða mánaðarlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldris í fullu fæðingarorlofi 80% af meðaltali heildarlauna eða reiknaðs endurgjalds fyrir tiltekin tímabil vegna barna sem fæðast frá og með 1. janúar 2025, þó aldrei hærri en kr. 800.000. Sjá nánar á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs, www.faedingarorlof.is
Viðmiðunarþak sjóðsins skv. grein 6.2.1. í kjarasamningi SSF er því kr. 1.000.000,
800.000/0,8 = kr. 1.000.000
Allir sem hafa mánaðarlaun kr. 1.000.000 eða lægri halda því 100% launum í allt að 7,5 mánaða fæðingarorlofi. Þeir sem eru með hærri mánaðarlaun en kr. 1000.000 fá þá kr. 200.000 frá fyrirtækinu í allt að 7,5 mánuði.
Foreldraorlof
Lögin tryggja einnig sjálfstæðan rétt foreldris til fjögurra mánaða foreldraorlofs til að annast barn. Þessi réttur er ekki framseljanlegur og nær til sömu tilvika og rétturinn til fæðingarorlofs. Rétturinn til foreldraorlofs skapast eftir sex mánaða samfellt starf, en fellur niður þegar barn hefur náð 8 ára aldri. Þó geta foreldrar átt rétt til töku foreldraorlofs allt að 8 ára aldri barns hafi rétturinn ekki verið fullnýttur og það greinist síðar með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm. Rétti til foreldraorlofs fylgir ekki réttur til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Sjá nánar á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs, www.faedingarorlof.is
Efnisval
- Launagreiðendur
- Félagsgjöld
- Greiðslur í lífeyrissjóð
- Mótgreiðslur í fæðingarorlofi